| fimmtudagur 17. apríl 2014

ÞÓ LÍÐI ÁR OG ÖLD!

Þó líði ár og öld er yfirskrift fundar Aldrei fór ég suður og Kraums tónlistarsjóðs sem haldinn verður á föstudaginn langa milli kl. 14-16. Fundir af þessum toga hafa verið liður af hátíðarhaldi AFÉS og þeir hafa oftar en ekki verðir kallaðir öllum illum nöfnum, t.a.m. ráðstefna, málþing, stefnumótun og margt þaðan af verra.
 
Þó líði ár og öld mun fjalla fyrst og fremst um framtíð útgáfu tónlistar á Íslandi og munu þeir Kristján Freyr Halldórsson tónlistarmaður og Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur stýra umræðunni. Líkt og síðustu ár verða nokkrir kunnir aðilar úr tónlistarbransanum hér heima dregnir uppá pallborð en allur salurinn tekur þó jafnmikinn þátt í umræðunum því fundurinn er algjörlega gagnvirkur.
 
Þeir sem munu m.a. reifa málin í pallborði eru Dr. Páll Ragnar Pálsson tónskáld og gítarleikari í Maus, Skúli Þórðarson pylsugerðarmaður og söngvari í hljómsveitinni Skúli mennski, Ragna Kjartansdóttir hljóðsnillingur og rappari í Cell7 og Unnsteinn Manúel Stefánsson sjónvarpsmaður og söngvari í hljómsveitinni Retro Stefson svo einhverjir séu nefndir.
 
Kaffirabbfundurinn verður haldinn í sal tónlistarskólans, Hömrum og hefst eins og áður segir kl. 14.00 og er öllum opinn.
 
Verið hjartanlega velkomin!