Ágúst Atlason | föstudagur 22. mars 2013

Það kemst sko ekki hvað sem er á frímerki!

Það segir Daníela Gunnarssdóttir, sölu og markaðsfulltúi Póstsins, en Aldrei fór ég suður nýtur þess heiðurs að prýða nýtt frímerki sem kemur út þann 2. maí næstkomandi. Frímerkið er hannað af hönnuðinum Lindu Ólafsdóttur, en hún hannaði 5 frímerki fyrir 5 bæjarhátíðir. Hátíðirnar eru:

  • Hinsegin dagar í Reykjavík
  • Aldrei fór ég suður
  • Fiskidagurinn mikli
  • Tónlistaveislan Bræðslan
  • Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

Og það er alveg greinilegt að Aldrei fór ég suður hefur klifrað á stall meðal stærstu bæjarhátíða landsins! Aldrei.is hafði samband við Lindu og spurði hana út í pælingarnar og innblásturinn fyrir frímerkið, greinarhöfundur fór aðeins hjá sér við að lesa þessi einlægu svör frá Lindu þar sem hún minnist á að myndir greinarhöfunds hafi hjálpað til við innblásturinn, en látum það flakka í auðmýkt:

 

1. Hver er innblástur þinn í Aldrei fór ég suður frímerkinu?

Rokk og gleði!  Ég skoðaði myndir frá hátíðinni (m.a. þónokkrar mjög flottar eftir þig ;), skissaði og fékk hugmyndir bæði frá myndunum og með því að lesa um hátíðina.  Svo setti ég þessar skissur saman í eina mynd sem mér þótti fanga stemninguna.

 

2. Af hverju þú, hefur þú hannað frímerki áður?

Pósturinn hafði samband við mig og bað mig um að myndskreyta og hanna merkin.  Ég hef aldrei áður hannað frímerki og þótti þetta því mjög spennandi verkefni.  Og eins mjög skemmtilegt að fá að hanna alla umgjörðina utan um merkin frá A-Ö, þ.e. arkirnar og mynstur utan um merkin, fyrsta dags umslög og útgáfustimpil.  Ég fékk frábæra aðstoð við uppsetninguna frá Helgu vinkonu minni, hönnuði hjá Soupdesign og við að reka endapunktinn á seríuna.  

 

3. Hefur þú mætt á Aldrei fór ég suður?

Nei því miður! Það hefur þó verið á to-do listanum lengi, sérstaklega núna eftir að ég er búin að kafa dálítið ofan í hátíðina.  En ég hlusta alltaf á hana á Rás 2, telst það með?

 

Það er alveg greinilegt að Lindu tókst ætlunarverk sitt með hönnun þessa frímerkis og verður gaman að sjá það á hornum bréfa framtíðarinnar! Og um leið hvetjum við Lindu til að mæta sem fyrst á Aldrei fór ég suður!

 

Endilega kíkið á vef Lindu Ólafsdóttur og sjáið hvað hún er klár!