| mánudagur 14. apríl 2014

Þegar rokkið stal páskunum!

Hver er eftirminnilegasta Aldrei fór ég suður hátíðin? Á ekki að svara svona spurningu á tímamótum? Mannfólkið þarf að vísu ekki að gera það á stórafmælum, „hvaða ár í lífi þínu er eftirminnilegast?“ er bjánaleg spurning. En svo ég svari spurningunni, þá er ég ekki frá því að fyrsta hátíðin sé eftirminnilegust, sú sem var haldin í móttökunni í Sindrabergi (áður Ritur, þar áður Rækjustöðin).

Strax í upphafi fullkomnaðist galdur feðganna, hráslagalegt umhverfi, Dóri Hermanns og DJ Haddi Bæjó (Halldór Halldórsson, þáverandi bæjarstjóri) komu fram ásamt meðal annars Trabant, sem var besta hljómsveit Íslands á þeim tíma. Það var skítaveður, bjórtaldið fyrir utan verður seint kallað sérstaklega kósi þar sem snjó skóf inn í tjaldið, en það voru allir í fílíng og það er jú alltaf fyrir mestu. Ég náttúrulega gleymi að tónleikarnir byrjuðu klukkutíma of seint af því að rafmagnið sló út og heilan her rafvirkja þurfti til að leita að biluninni—gott ef einhverjar fínar græjur frá Venna eyðilögðust ekki þegar rafmagnið fór í hönk. Þetta var semsagt hæfilega kærulaus steik.

Fyrir tíma Rokkhátíðar alþýðunnar snerust páskar í mínum huga um skíði og gott ball með SSSól í Sjallanum. Og fyrir tíma Helga Björns og Sólarinnar snerust páskar um Jesú Krist, en það er history. Rokkhátíðin stal þá páskunum frekar af Helga Björns en MC JK, nema að Helgi lætur ekki stela frá sér, hann útdeilir.

Að ég velji fyrstu hátíðina sem þá eftirminnilegustu/bestu hefur líklega eitthvað með það að gera hún er sú eina sem ég hef verið á sem óbreyttur tónleikagestur. Eftir fyrstu hátíðina hitti ég Mugga—sem ég þá þekkti ekki neitt—á förnum vegi og hann gaf út munnlegt skipunarbréf um að ég yrði með í skipulagningu næstu hátíðar. Ég þráaðist ekkert við. Maður þráast ekki við þegar kapteinn Muggi segir manni að gera eitthvað. Síðan þá hef ég verið mis-innarlegur koppur í búri hafnarstjórans, nema þegar ég hef ekki verið á landinu um páska.

Það minnir mig á aðra eftirminnilega hátíð. Eina páskana var ég staddur í smábæ á vesturströnd Noregs og þurfti að fylgjast með HAM spila í gegnum netstreymið. Það var erfið stund að sjá uppáhaldshljómsveit unglingsáranna spila á Aldrei fór ég suður og ég fastur lengst út í norsku rassgati. Það hjálpaði til að ég var meðal vina og þeir gátu hjálpað mér í gegnum þetta.

En hvers vegna finnst fólki svona gaman á Aldrei fór ég suður? Á ég að setja í síníska gírinn og segja: þetta er ekki flókið; mörg af bestu böndum landsins spila á hverri hátíð og það er frítt inn, hvernig getur það klikkað? Eða ég að krútta mig upp og segja: það er svo mikill samhugur, Bubbi og Hjaltalín fá jafnmikla athygli og Kristina Logos og afi og amma eru úti í sal með barnabörnunum?

Ég hreinlega veit ekki svarið. Ég veit ekki hvort það er einhver sérstakur galdur, fyrir utan góða tónlist. Hátíðin hlýtur að standa og falla með góðri tónlist.

Eftirminnilegustu stundir mínar hafa kannski meira með skipulagningu hátíðarinnar að gera. Ein lítil saga: Framan af sá Örn Elías um að bóka bönd til að spila á hátíðinni. Við Hálfdán Bjarki höfum oft og tíðum verið í „bad cop/bad cop“ hlutverkinu (les: neikvæðir svartsýnisrausarar). Einu sinni sem oftar vorum við að gera hausatalningu til að skipuleggja bæði flug og gistingu og við tókum eftir að einn aukahaus hafði bæst við eina hljómsveitina (hljómsveitin var nokkuð þekkt og við vissum alveg hversu margir væru í henni). Við gengum á Ödda og sögðum að eitthvað væri ekki alveg rétt, þarna hefði bæst við aukamaður (það hefur í gegnum tíðina gerst að skyndilega bætast við aukameðlimir í hljómsveitir því allir vilja komast vestur í fjörið). Fyrir þá sem ekki vita þá á Öddi afskaplega auðvelt með að sannfæra fólk um ótrúlegustu hluti og með hliðsjón af því hversu þrjóskir við Háli getum verið furða ég mig á því hversu auðvelt hann átti með að snúa okkur.

Svona fór samtalið fram:

H: Öddi, hvað er í gangi, þessi náungi er ekkert í bandinu?

Ö: Þetta er alveg frábær gaur. Hann ætlar að spila undir í einu lagi með þeim, þið eigið eftir að fíla hann.

S: Það skiptir engu máli hvort við fílum hann. Hann er ekki í bandinu og við erum ekki með endalaust gistipláss.

Ö: Þið hafið ekki hitt hann...

H&S: (gripum fram í) Sko Öddi, þetta snýst ekki um það... (og fórum með langan og leiðinlegan lestur um að hann geti ekki verið endalust byggt óraunhæfar skýjaborgir og hann verði að koma sér niður á jörðina).

Ö: Strákar, þetta er alveg frábær gaur. Hann er með svo stutta handleggi að hann nær ekki niður í vasana á buxunum. Þið verðið að sjá hann!

Hverju svarar maður þessu? Það er ekki hægt og við lympuðumst niður. Enn einu sinni hafði Öddi yfirtrompað okkur.

Gaurinn kom vestur, hann var með stutta handleggi og við Háli fíluðum hann.- Smári Karlsson