Ágúst Atlason | fimmtudagur 21. apríl 2011

Þjófstart Aldrei fór ég suður í dag!

Það mætti segja að rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður sé þjófstartað sólarhring áður en fyrstu tónar munu óma um rokkskemmuna góðu. Í kvöld verður dagskrá á vegum hátíðarinnar á tveimur stöðum í miðbænum, annars vegar í sal Tónlistarskólans, Hömrum, sem er við hliðina á sundlaug bæjarins og hinsvegar á skemmtistaðnum Krúsinni í kjallara Ísafjarðarbíós. Þetta er annað árið í röð sem boðið er uppá álíka dagskrá á skírdagskvöldi en hugsunin er að dreifa úr Aldrei fór ég suður andanum og fara með hann niðrí bæ.

En hvað verður svo í boði?
Fyrsti atburður Aldrei fór ég suður í ár verður án ef afar skemmtilegur, þó afslappaður og menningarlegur í senn. Í Hömrum kl. 20.00 hefst nefnilega Af fingrum fram þar sem Jón Ólafsson sest fyrir framan flygilinn og ræðir við ísfirska popparann Helga Björnsson. Saman munu þeir fra yfir ferilinn í tali og tónum og þeim til aðstoðar verður bassaleikarinn bolvíski Valdimar Olgeirsson. Þetta skemmtikvöld mun standa frá kl. 20-22 og aðgangseyrir er 2.000 kr.
Eftir að Af fingrum fram lýkur tekur strax annað skemmtikvöld við í næsta húsi. Í Krúsinni verða tónleikar með hvorki meira né minna en þremur hljómsveitum ásamt því að við fáum uppistand á milli atriða. Þeir sem munu koma fram eru Lára Rúnarsdóttir ásamt hljómsveit sinni, hljómsveitin Lifun frá Keflavík sem átt hefur nokkur af vinsælustu lögunum á landinu uppá síðkastið. Söngkonan Margrét Rúnarsdóttir er systir fyrrgreindrar Láru. Síðast en ekki síst mun Skúli hinn mennski Þórðarson mæta með hljómsveit sína Grjót ásamt söng- og leikkonunni Þórunni Örnu Kristjánsdóttur. Á milli atriða mun Hugleikur Dagsson slá á létta strengi.