Snorri Örn Rafnsson | laugardagur 4. apríl 2015

Tónlistarveisluhöld!

Þá er loks kominn laugardagur, sem er gleðiefni fyrir marga.
Flestir eru spenntir fyrir skemmutónleikunum, en þeir hefjast klukkan 17:00.
En það er nóg annað að gera í dag þangað til.

Súpa og tónlist er úrvals blanda, og hana verður hægt að nálgast í Krúsinni á milli 14:00 og 16:00.

Kakó og vöfflur verða á boðstólunum í After Ski á Hótel Ísafirði ásamt léttri tónlist á milli 15:00 og 17:00.

Klukkan 15:00 hefst heimkomuhátíð Háskólasetursins, en þar er mikil og áhugaverð dagskrá sem hefst á ávarpi forseta Íslands. Fyrirlestrar, fróðleikur og að sjálfsögðu tónlist, en stelpurnar úr Ylju munu ylja gestum með ljúfum tónum.

Seinna í kvöld verður svo nóg að gera fyrir djammþyrsta hátíðargesti.

Á Húsinu heldur DJ Óli Dóri uppi fjörinu fram á nótt.

Sniglabandið mun vera í brjáluðu stuði í Edinborg, og heyrst hefur að Rythmatik muni vera með innkomu þar einnig.

Og loks þá verður President Bongó úr GusGus að gera allt brjálað í Krúsinni.

En aðalmálið er að sjálfsögðu Skemmutónleikarnir góðu, en þar munu fjölmargir frábærir tónlistarmenn gleðja okkur og halda á okkur hita.
Einnig verður þar hægt að versla allan okkar frábæra varning, sem og alls kyns drykkjarföng og matvæli.
Muna að klæða sig eftir veðri og vera í hámarksstuði!

 

Flestir koma vel undan gærkvöldinu geri ég ráð fyrir, en það var mikið fjör í bænum, sem og víðar.
Dæmi um það er þetta myndband sem var tekið í Gúttó í gærkveldi, þar fer Lori Kelley á kostum ásamt fríðu og föngulegu föruneyti.