Ágúst Atlason | föstudagur 15. apríl 2011

U.S.I - Hvað er nú það?

Skellti í viðtalsgír og tók smá fésbókarímeilspjall við strákana í U.S.I. Lagði fyrir þá nokkrar spurningar og fékk þessi fínu svör frá yngstu listamönnum þessa árs. Ísfirskt band, kíkið á fésbókar síðuna þeirra!

 

1. Hverjir skipa bandið(hver spilar á hvað, aldur, hva er bandið gamalt) U.S.I og svona fyrir okkur vestfirðingana, hver á ykkur(foreldrar)?

Við erum sex í hljómsveitini, söngvari, tveir gítarleikarar, bassaleikari, trommari, og hljómborðsleikari. Daði Már Guðmundarson er fæddur 1991 og er 200 ára, syngur með okkur á Afés, Mateus Samson sonur Iwonu Samson spilar á bassa, Hákon Ari sonur Halldórs fyrirverandi bæjarstjóra og Guðfinnu M. spilar á rythmagítar, Þormóður spilar einnig á gítar, foreldrar Þormóðs eru Dóra og Kristinn í Dórukoti og Eiríkur Sverrir Björnsson sem býr nú með eiginkonu sinni í Boston. Benni Bent sonur Ernu og Árna í Hjónabandinu (hljómsveit) spilar á hljómborð og Ísak Emanúel sonur Hrafnhildar kennara og Tolla í Murr trommar. Benni, Ísak og Mateus eru fæddir 1995 og eru 16 ára, Hákon og Þormóður eru fæddir 1996 og eru 15 ára. Við byrjuðum að spila saman í fyrra og svo fengum við hugmyndina að stofna U.S.I í byrjun árs 2011. Fyrsta giggið var Rósaballið sem er grunnskóla ball. Við tókum eiginlega bara cover á því giggi af því að við vorum ekki búnir að semja nein lög þá. en nú eru komin um það bil sex heil lög, en annars eru þau óteljandi sem við höfum aldrei klárað.

 

2. Hvernig tónlist spilið þið, og hverjir eru ykkar helstu áhrifavaldar í tónlist?
Við spilum aðallega bara rokk tónlist en ef við þurftum að lýsa því nánar þá spilum við aðalega alternative rock. Lögin sem við höfum samið eru mjög þung en samt melódísk og líka mjög fjölbreytt. Það eru samt ekki beint neinar ákveðnar hljómsveitir sem hafa áhrif á U.S.I í heild. En það eru samt hljómsveitir sem hafa haft áhrif á hæfileika hjá hverjum og einum í hljómsveitini. Mateus t.d. hefur þróað stílinn sinn mjög mikið út frá Metallica, Dream Theater og Alice in Chains, Ísak hlustaði mjög mikið á Kiss í "gamla daga" og gömlu legendin(Travis Barker er uppáhalds trommarinn hans). Hákon Ari þróaði gítar stílinn út frá AC/DC og Johnny Cash. Þormóður seldi djöflinum sálu sína til að geta spilað á gítar og Benni hefur mikið hlustað á Metallica og Iron Maden... píanóið pikkaði hann bara upp frá Þútub, en Van Halen hafði líka áhrif á píanó stíl hans.

 

3. Kom það ykkur á óvart að fá að spila á Aldrei í ár og hvernig voru viðbrögðin þegar Rokkstjóri hringdi í ykkur og tilkynnti að þið væruð með?

Við héldum að það myndi aldrei gerast. Þetta byrjaði á því að Mugison hitti þormóð í hamraborg og spurði hann útí hljómsveitina og bauð svo hljómsveitinni að spila. Við sóttum um en föttuðum svo að við vorum ekki með síðu eða demó né neitt þannig okkur fannst ekki líklegt að við myndum fá að spila, líka bara af því að við erum nýbyrjaðir, eiginlega enginn þekkir okkur og við vorum bara búnir að spila á einu giggi. Svo kom fyrsti listinn út sem við vorum ekki á þannig við ættluðum bara að reyna næsta ár og snúa okkur aftur að því að semja lög og æfa. Svo einn daginn þegar Þormóður var veikur heima heyrði mamma hanns (Dóra í Dórukoti) nafnið á hljómsveitini í útvarpinu þegar það var verið að lesa listann yfir listamenn sem eru að fara að spila og hljóp upp og vakti Þormóð og sagði honum frá því þannig Þormóður sendi póst og bað rokkstjórann að hringja og hann hringdi og sagði honum að það væri staðfest þannig þormóður hringdi STRAX í Hákon og hann öskraði eins og lítil stelpa sem er nottlega bara frábært að heyra þegar maður er veikur og nývaknaður. En við vorum samt allir mjög hissa og mjög ánægðir! Að fá að spila með frekar mörgum frægum og hæfilíkaríkum tónlistarmönnum á rokkhátið alþýðunnar er almennilegt tækifæri og erum mjög þakklátir !!

 

4. Hver eru framtíðarplön U.S.I?

Við ættlum bara að halda áfram að semja og æfa og vonandi svo vinna í plötu ef allt gengur vel, svo sjáum við til með hvað gerist...... (djók, við ætlum að vera geðveikt frægir)

 

5. Fyrir hvað stendur nafnið U.S.I?

U.S.I. Stendur fyrir United States of Iceland.

 

6. Skilaboð til aðdáenda og hátíðargesta?
Við vonum bara að áhorfendur líki vel við tónlistina okkar og vilji fá að heyra meira og skemmti sér allann tímann!