Ágúst Atlason | laugardagur 30. mars 2013

Uppboð Pedal project í Vestfirzku versluninni

Þau Ásgeir Helgi og Hrefna eru miklir snillingar og hafa þau verið að framleiða sjálf gítarpedala fyrir tónlistamenn. Nú hafa þau búið til Aldrei fór ég suður pedala, sem er sérmerktur hátíðinni, allur hinn glæsilegasti auðvitað. Hrefna hefur séð um útlit þessa fallega pedals. Þessi stuðpedall er nú á uppboði niður í Vestfirsku verslun og rennur allur ágóði sölunnar til styrktar Aldrei fór ég suður! Þar sem það kostar nokkrar millur að halda svona hátíð, er allur aur vel þeginn og er þetta frábært framtak hjá þessum ungu frumkvöðlum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir!

 

Hún Birna Jónasdóttir hitti Ásgeir Helga á facebook og spurði hann út í þetta nýja dót sem hann er farinn að framleiða.(Viðtal fengið að láni úr blaði Aldrei fór ég suður)

 

Hvað er Pedal Projects?

Ég stofnaði Pedal Projects í byrjun júlí 2011 eftir að hafa verið nýfluttur til London til að læra "Studio & Live Sound Engineering í Alchemea College Of Audio Engineering" sem mætti útleggjast sem hljóð- og upptökustjórnun. Á þeim tíma var þetta ekkert nema áhugamál sem ég hafði lítið vit á. Ég hafði spilað á gítar í 11 ár og hef mikla reynslu en ég skildi aldrei hvað væri innan í þessum litlu kössum sem menn nota til að breyta hljómnum úr rafmagnsgítarnum sínum. Ég hafði reyndar lesið mér til í nokkra mánuði áður en ég flutti út og reyndi að byggja upp eins mikinn skilning og ég mögulega gat.

Til að byrja með hafði ég aðeins hugsað mér að smíða pedala (pedall er oft kallaður fetill á íslensku) fyrir sjálfan mig til að spara pening þar sem alvöru hlutirnir eru rándýrir. Eftir margar misgóðar tilraunir fór ég loks að skilja hvernig þetta virkaði allt saman og ég fór að smíða pedala hraðar og betur.

 

Hvar er hægt að kaupa græjuna?

Ég byrjaði að selja pedala á eBay og svo bjó ég líka til Facebook-síðu, allt var þetta smátt í byrjun en núna í dag eru yfir 8.000 “likes” á Facebook síðunni, 750 fylgjendum á Instagram og fer þeim ört fjölgandi ásamt því að margir fylgjast með á eBay líka. Ég hef smíðað yfir 350 pedala og langmesta hlutfall seldra eintaka er erlendis en þó hafa nokkrir á Íslandi keypt af mér pedal. Yfir páska hátíðina er einnig hægt að nálgast pedalana í Vestfirsku Versluninni á Ísafirði.

Tekurðu við séróskum?

Já ég smíða nánast hvað sem er, bara það sem fólk biður um, en það eru þó takmarkanir sem ég útskýri fyrir fólki ef þörf krefur. Kærasta mín, Hrefna Erlinda Valdemarsdóttir, sér um að handmála pedalana og hefur gert marga mjög flotta í gegnum tíðina. Stundum fær hún að velja sér myndir til að mála sjálf en oft biður fólk um eitthvað ákveðið sem það langar í.

 

Er þetta made in China?

Ekki alveg, í dag er ég með aðstöðu í Varmadal, Flateyri. Þar er ég búinn að koma upp miklu safni af því sem ég þarf til að smíða pedala og þar vinn ég alla daga. Daglega næ ég að smíða um 2-3 pedala en það fer þó allt eftir hvernig gengur og hversu flóknir þeir eru.