Ágúst Atlason | föstudagur 16. desember 2011

Viðtal og þakkarorð: Jón Þór Þorleifsson Rokkstjóri

Viðtalið er fengið að láni frá kynningarriti Félags vestfirskra listamanna, List á Vestfjörðum sem var gefið út núna í haust og dreift um alla Vestfirði. Kunnum við þeim þakkir fyrir að fá að birta þetta viðtal.

 

Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, var haldin á Ísafirði í áttunda sinn nú í vor, en hún hefur heldur betur fest sig í sessi í þjóðarvitundinni síðan hún hóf göngu sína. Eins og margsinnis hefur komið fram er hátíðin hugarfóstur feðganna Mugison og Mugga, sem sáu þó ekki fyrir að hún yrði árlegur viðburður þegar þeir lögðu fyrstu drögin að ísfirskri tónlistarhátíð. Á hátíðinni hefur margt fremsta og þekktasta tónlistarfólk þjóðarinnar komið fram, en jöfn áhersla hefur samt sem áður verið lögð á óþekktari listamenn, sérstaklega frá Vestfjörðum. Hvað markmið hátíðarinnar varðar hafa aðstandendur hennar aldrei farið í grafgötur með það að þeirra heitasta ósk sé að á henni ríki sullandi stuð, eins og það heitir.

 

Að Aldrei fór ég suður hefur frá upphafi staðið samhentur hópur fólks sem gefur vinnu sína við hátíðina. Að vanda hóf undirbúningshópurinn vinnu sína um jól og fór dagskrá hans að þéttast þegar líða fór á veturinn. Í ár var sá hátturinn hafður á að hópurinn bar sig í auknum mæli eftir aðstoð heimamanna. Sú nýbreytni gafst sérlega vel að mati aðstandenda, enda dreifðust verkefnin á fleiri hendur og nýjum þáttakendum fylgdi aukinn kraftur.

 

Heimasíða hátíðarinnar, www.aldrei.is, er gott dæmi um hvers vel tókst til, en Ágúst Atlason tók að sér ritstjórn hennar, auk þess að gefa henni nýtt og ferskara útlit. Ágúst og samstarfsfólk hans náðu að lífga svo hressilega upp á síðuna að fyrirtæki alls óháð hátíðinni voru farin að falast eftir því að auglýsa á síðunni, enda var umferðin um hana mjög þétt og jöfn. Eins sá sterkur hópur um undirbúning og sölu á varningi tengdum hátíðinni. Úr þeirri vinnu komu alveg nýjar stefnur í söluvarningnum og miklu meira úrval en áður hefur verið. Sami hópur sá um að skipuleggja alla dreifingu á varningnum sem og að manna sölubásinn sem var opinn alla helgina á tónleikasvæðinu. Hápunktur vinnu söluteymsisins var hins vegar tvímælalaust uppboð á lopapeysu merktri Mugison og merki hátíðarinnar, en sú seldist á áður óheyrðu verði fyrir lopapeysu.

 

Á hátíð sem þessari, þar sem enginn fær greitt fyrir þátttöku, skiptir höfuðmáli að gestirnir sem koma til að troða upp upplifi sig sérstaklega velkomna. Undanfarin ár hafa aðstandendur því efnt til páskaveislu fyrir popparana, þar sem Papamug hefur boðið upp á rækjukokteil í forrétt og páskasvín í aðalrétt. Sú veisla er orðin ein af vinsælustu matarveislum ársins. Til að gera enn betur við gesti sína blésu skipuleggjendur hátíðarinnar í ár til morgunverðarhlaðborðs á heimavist popparanna yfir helgina. Það mæltist svo vel fyrir að ákveðið hefur verið að hlaðborðin verði hluti af hátíðinni héðan í frá.

 

Að nefna framlag nokkurra sjálfboðaliða er að hætta sér út á hálan ís, því fjöldinn sem að Aldrei fór ég suður kemur, á einn eða annan hátt, er í raun óteljandi. Hátíð sem þessi gæti aldrei orðið veruleiki ef ekki væri fyrir dyggan stuðning heimamanna – sem og gesta, sem leggja leið sína vestur gagngert til þess að hjálpa til við undirbúning. Ekki eru til nógu sterk orð til þess að lýsa þakklæti okkar aðstandenda til þeirra sem leggja hönd á plóg. Ætli það sé ekki einfaldast að segja eitt stórt og gott TAKK.

 

Jón Þór Þorleifsson, rokkstjóri