Snorri Örn Rafnsson | mánudagur 9. mars 2015

Og það er meira...

Við erum ekki allskostar hætt að kynna til leiks hljómsveitir sem munu spila fyrir okkur um páskana.
Það er ennþá nóg eftir í pottinum og vonandi munu allir finna sér eithvað við hæfi.
Hérna eru nokkur í viðbót:

 

Rythmatik
Sumir segja að þeir eigi eftir að verða svo heimsfrægir að annað eins hafi aldrei áður þekkst, og að þeir munu selja svo margar plötur að bestu og fullkomnustu tölvur heimsins ráða ekki við að telja þær.
Það eina sem við vitum er að þeir heita Rythmatik, eru fjórir vestfirskir dáðadrengir sem við höfum séð áður á Aldrei.
þeir spila skemtilega og grípandi indie tónlist.
Þeir slógu í gegn á Airwaves 2014 og þeir stefna klárlega á heimsyfirráð.

 

 

Emmsé Gauti.
Gauti Þeyr Másson er ungur, en þaulreyndur íslenskur rappari sem er búinn að vera að semja og flytja rímur síðan 2002. Hann hefur unnið með mörgum af helstu hip hop listamönnum íslands, en hóf sólóferil sinn 2010 og hefur síðan þá gefið út tvær breiðskífur og verið óþreytandi við að spila sína tónlist live ásamt því að sinna ótal öðrum verkefnum.

 

 

Sigurvegarar músíktilrauna 2015.
Við vitum ekki ennþá hvaða hljómsveit mun fylla þetta spot, því Músíktilraunir 2015 eru ekki búnar.
Úrslitakvöldið mun fara fram í Hörpu laugardaginn 28. Mars, sem gefur sigurvegurunum rétt nægan tíma til að fagna ógurlega, æfa sig pínu og skella sér svo á Ísafjörð um páskana.
Músíktilraunir hafa verið gríðarlega mikilvægur og frábær stökkpallur fyrir margar frábærar hljómsveitir og tónlistarfólk, og mörg af okkar stærstu starfandi, og óstarfandi hljómsveitum í dag hófu sinn feril þar. Það má sem dæmi nefna: Mammút, Of monsters and men, Agent Fresco, Mínus, Kolrassa Krókríðandi, Greifarnir og Dúkkulísurnar.
Listinn er lengri, en plássið er takmarkað.
Og ekki má gleyma að minnast á Vio, sem sigruðu í fyrra, og spiluðu á Aldrei fór ég suður 2014:

 

Snorri Örn Rafnsson | föstudagur 6. mars 2015

Föstudagskvöld í Ísafjarðarkirkju

Eins og fram hefur komið á BB.is þá mun hátíðin í ár vera með töluvert öðru sniði en undanfarin ár.

Það verða ennþá tvö kvöld af tónlist, en að þessu sinni þá munum við vera með lágstemmda órafmagnaða tónleika inni í Ísafjarðarkirkju á föstudaginn langa.

Það verður boðið upp á fjögur frábær tónlistaratriði:

 

Guðrið Hansdóttir.

Fátt passar betur í lágstemmdri órafmagnaðri tónleikastemmingu en söngvaskáld frá Færeyjum.
Guðrið hefur verið lengi að, gefið út þrjár stórar plötur um allan heim, plús eina sjö laga ep plötu þar sem hún flytur lög við ljóð hins þýska Heinrich Heine.
Hún hefur búið á Íslandi undanfarin ár og samið og spilað tónlist.

 

 

Júníus Meyvant.

Það er óhætt að segja að innkoma vestmanneyingsins knáa,  Unnars Gísla Sigurmundssonar í íslensku músíksenuna hafi tekist með ágætum.
Tónlistin hans er skemtilega grípandi þjóðlagaskotin popp tónlist sem hrífur þann sem hlustar með sér.
Hann fór heim af íslensku tónlistarverðlaununum með tvö verðlaun.
Bjartasta vonin og popplag ársins.

 

 

Himbrimi.

Tiltölulega nýleg hljómsveit frá Reykjavík, þó ekki sé hægt að segja annað en að meðlimir hljómsveitarinnar séu hoknir af reynslu. 
Þau eru  Margrét Rúnarsdóttir , Birkir Rafn Gíslason, Hálfdán Árnason, Skúli Arason og loks Egill Rafnsson, sem flestir ísfirðingar ættu að kannast við.
Þau spila drama popp af bestu gerð.

 

 

Valdimar.

Hljómsveitin Valdimar stökk beint í fremstu víglínu íslenskrar popptónlistar árið 2009 þegar hún var stofnuð. Núna, þremur breiðskífum og  haug af verðlaunum síðar, ætlar söngvari ársins 2015, Valdimar Guðmundsson, að skella sér vestur og vera með okkur í gleðinni. Það verður frábært að heyra hans kraftmiklu og fögru rödd hljóma um kirkjuskipið á föstudaginn langa. 

 

Snorri Örn Rafnsson | miðvikudagur 4. mars 2015

Tvö atriði í viðbót !

Það er komið að því að kynna tvo atriði í viðbót í flóruna 2015.
Klárlega bannað að missa af þessum snillingum!

Prins Póló
Prins Póló var tíður gestur á hverju heimili og í hverjum bíl árið 2014 með  sína frábæru tónlist.
Lagið París Norðursins  úr samnefndri kvikmynd gerði það gott og var spilað í döðlur allstaðar.
Svavar Pétur Eysteinsson er  allt í öllu í Prins Póló, ásamt því að vera í hljómsveitinni Skakkamanage, auk þess sem hann stundar búskap.
Við sáum hann síðast á Aldrei árið 2011 og ætlum að sjá hann aftur í ár!
Þetta er uppáhaldslagið okkar með Prins Póló

 

 

Pink Street Boys

Þeir eru frá kópavogi, þeir spila hátt og þeir spila hrátt.
Eithvað fyrir hörðustu rokkhundana til að hoppa við.
Tilnefndir til Norrænu tónlistarverðlaunanna fyrir  plötuna Trash from the Boys.
Þetta er alvöru hart rokk sem ætti að halda á okkur hita ef það verður kalt úti.

 

Snorri Örn Rafnsson | mánudagur 2. mars 2015

Aldrei fór ég suður 2015 – Alveg að fara að gerast!

Svona í tilefni af því að það fer að bresta á með einu stykki Aldrei fór ég suður,  þá finnst okkur upplagt að taka smá forskot á sæluna með því að kynna eithvað af því frábæra tónlistarfólki sem mun gleðja okkur ótæpilega um páskana, og hlýða á tóndæmi.

Hemúllinn


Þau okkar sem eru pínu eldri en tvævetur muna sjálfsagt eftir Hemúlunum úr múmínálfunum.


Góðlegar, en kannski pínu þröngsýnar verur sem voru jafnan í einhverjum yfirvaldsstöðum í samfélaginu og með söfnunaráráttu á háu stigi. 


Kannski minna þekkt fyrir tónlistargáfu og frábæra sviðsframkomu eins og okkar Hemúll. 
Okkar hemúll heitir Arnar Snæberg Jónsson og  kemur frá Hólmavík.
Hann hefur mikla tónlistargáfu og frábæra sviðsframkomu, en minna er vitað um söfnunaráráttuna.


Hann spilaði fyrir okkur á Aldrei í fyrra við góðan orðstír og hann ætlar að gera allt brjálað í ár.

 

 

Mugison
Einn af forkólfum hátíðarinnar mun stíga á sviðið í ár og taka nokkur af sínum frábæru lögum.


Hann Örn Elías Guðmunsson, eða Mugison,  ákvað fyrir mörgum árum ásamt pabba sínum,  honum Mugga hafnarstjóra að það væri kannski ekki svo vitlaus hugmynd að halda svona smá festival á páskunum á Ísafirði.


Afraksturinn var eins og við vitum öll: Aldrei fór ég suður: Rokkhátíð alþýðunnar.


Klárlega besta og frábærasta músíkfestival allra tíma!


Allavega á páskunum fyrir vestan...


Mugison vill ekki bara vera á bak við tjöldin á hátíðinni. Hann hefur oft stigið á svið og alltaf þegar hann gerir það á Aldrei þá gerist eithvað brjálað!

 

Birna Jónasdóttir | föstudagur 25. apríl 2014

Takk!

 

Eftir vel heppnaða og yndislega hátíð viljum við sem stöndum að Rokkhátíð alþýðunnar: Aldrei fór ég suður koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem gera okkur kleift að gleðjast saman og njóta góðrar tónlistar. Þar ber fyrst að nefna alla tónlistarmennina sem komu fram á hátíðinni. Það er ekki sjálfgefið að tónlistarmenn hvaðanæva af landinu ferðist um langan veg til að koma fram hátíð þar sem ekki er borguð króna fyrir þeirra framlag. Og ekki nóg með það, þegar tónlistarfólkinu var tilkynnt á síðustu stundu að flugið hefði verið fellt niður og þeirra biði 7 tíma rútuferð vestur þá heyrðist ekki múkk og allir voru í fílíng og heldur betur til í rútuferð. Þessi gjafmildi er eins og áður segir ekki sjálfsögð og væri sennilega ekki til staðar ef ekki væri fyrir góðar og hlýjar móttöku Ísfirðinga. Við búum svo vel að helstu bakhjarlar hátíðarinnar eru þeir sömu ár eftir ár, án þeirra væri ekki nein rokkhátíð. Flugfélag Íslands hefur stutt vel við bakið á hátíðinni frá upphafi. Landsbankinn hefur verið með okkur í mörg ár, sem og Samskip og Kraumur tónlistarsjóður. Orkusalan og Orkubú Vestfjarða hafa bæst við á síðustu árum. Þessum sex helstu bakhjörlum hátíðarinnar þökkum við kærlega fyrir samstarfið.

 

Hljóðmenn, ljósamenn og sviðsmenn sem koma ár eftir ár og standa vaktina eiga skilið eina góða fimmu.

Fjölmörg önnur fyrirtæki greiða götu hátíðarinnar. Má þar sem dæmi nefna H.V. umboðsverslun, Jakob Valgeir ehf., Kampa ehf., Gámaþjónustu Vestfjarða, Extón, Stuð ehf., Avis, Hótel Ísafjörð, Arna mjólkurvinnsla og N1.

Ísafjarðarbær er alltaf boðinn og búinn að hjálpa til og hvar værum við án karlanna í Áhaldahúsinu?

Foreldrafélag KFÍ og BÍ hafa verið í samstarfi við okkur í mörg ár og manna gæslu og veitingasölu og vonumst við til að það samstarf haldi áfram.

 

Fjöldi sjálfboðaliða sjá um minjagripasölu og gerð minjagripa og gera það vel. Salan er mikilvæg tekjulind hátíðarinnar.

Það er mjög upplífgandi að vera í skemmunni í uppsetningu hátíðarinnar og sjá þegar bæjarbúar kíkja við og athuga hvort þeir geti ekki aðstoðað eitthvað, hvort það vanti ekki vinnufúsar hendur.

Lögreglunni á Vestfjörðum og Slökkviliði Ísafjarðarbæjar viljum við þakka gott samstarf í ár sem fyrri ár.

 

Og að lokum viljum við þakka öllum þeim fjölda sem sótti hátíðina. Þið voruð frábær. Mörg þúsund manna rokkhátíð með tilheyrandi galsa og stuði fór fram án nokkurs vesens sem vert að minnast á. 

 

Takk fyrir okkur, gleðilegt sumar og sjáumst að ári!

 

 

| laugardagur 19. apríl 2014

Laugardags Lænöpp - Það er komið að seinni hálfleik!

 

Góðan daginn! Það eru vonandi allir jafn hressir og við!  

Gærkvöldið var geðveikt og þetta hefði ekki getað gengið betur.
High five til ykkar! 

 

En þetta er ekki búið enn og við lofum 10x meiri stemmingu en var í gær, við bjóðum uppá annað kvöld af skotheldu lænöppi sem er stútfullt af hamingju.

Það verður aftur blásið til leiks kl 18:00 og er enginn önnur en Lína Langsokkur sem ætlar að vera með smá glens og gaman!

 

 

Laugardagur 19 apríl! 

 • Lína Langsokkur 
 • Lón 
 • Markús and the Diversion Sessions
 • Solar 
 • Kaleo 
 • Snorri Helgason 
 • Grísalappalísa
 • Highlands
 • Dj. Flugvél og Geimskip 
 • Helgi Björnsson og Stórsveit Vestfjarða 
 • Hjaltalín 
 • Sólstafir 
 • Retro Stefson 

Hlökkum til að sjá ykkur öll í kvöld í blússandi sullandi stuði og tilbúin í kvöldið!