Snorri Örn Rafnsson | laugardagur 15. apríl 2017

OG SVO KOM LAUGARDAGURINN!


Dagskráin Laugardag
18:00 DJ GLÓ
19:30 Between mountains
20:00 DJ Helga Þórdís
20:10 Hildur
20:40 DJ Baldur Smári
20:50 Vök
21:20 DJ Ylfa Mist
21:30 Emmsjé Gauti
22:10 Börn
22:50 Rythmatic
23:30 Valdimar
Ágúst Atlason | föstudagur 14. apríl 2017

Aldrei fór ég suður LIVE á RÚV!

Rúvarar eru svo góðir að senda Aldrei fór ég suður LIVE út á netið fyrir ykkur sem komist ekki í skemmustuðið. 

 

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ SJÁ ALDREI FÓR ÉG SUÐUR 2017 HJÁ RÚÚÚVVVVVVVH!

Snorri Örn Rafnsson | föstudagur 14. apríl 2017

SVONA ER FÖSTUDAGURINN


Dagskráin Föstudag
18:00 DJ GUlli Disco
19:30 Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar
20:00 Rúna Esra
20:10 Soffía Björg
20:40 Herra Hammond
20:50 Karó
21:20 Halla Mía
21:30 KK Band
22:10 Mugison
22:50 Kött Grá Pje
23:30 HAM
Snorri Örn Rafnsson | miðvikudagur 12. apríl 2017

EINN RÆKJUBORGARA TAKK!

Hver man ekki eftir því að hafa brugðið sér inn í Vitann og fengið sér kalda kóla og Rækjuborgara?
Við sem erum svo lánsöm að muna getum endurnýjað kynni okkar við þennan stórkostlega rétt í nýrri og endurbættri veitingasölu Afés. Nú og þeir sem ekki muna eftir rækjuborgaranum eða Vitanum sjálfum sökum aldurs,  skorts á aldri eða öðrum ástæðum einhverjum geta snarlega bætt úr því.
Í góðri samvinnu við eðalhjónin Jóa Torfa og Helgu Sigmunds höfum við nefnilega endurvakið og endurbætt þennan sígilda ísfirska rétt fyrir okkur öll og við þökkum þeim fyrir. Það má því með sanni segja að ,,Kombakk ársins" komi hér fram á sjónarsviðið í formi klassíska rækjuborgarans.

En þetta eru ekki einu breytingarnar á veitingasölunni okkar. 

Fyrst ber að nefna að í ár munum við selja allar okkar veitingar innandyra. Við höfum kvatt tjöldin í bili og munum hafa það kósý inni í húsakynnum Kampa með allan okkar mat og drykk.
Það er enginn annar en matgæðingurinn Guðmundur Björgvin Magnússon, sem er hrikalega fær í að elda fisk ofan í fólk í Tjöruhúsinu, sem tekið hefur skurk í skipulaginu hjá okkur og lagað það sem lagað varð og bætt við þar sem uppá vantaði.

Úrvalið er ekki svo mikið frábrugðið fyrri árum að undanskildum rækjuborgaranum. 
Hin ómissandi fiskisúpa er á sínum stað ásamt besta plokkara í heiminum öllum að sjálfsögðu.
Auk þess getum við fengið okkur samlokur og lax og alls kyns drykki til að skola þessu niður með.

Það er því ekkert annað en upplagt að mæta snemma og fá sér gott að borða og drekka fyrir tónleikana sjálfa, en veitingasalan (og reyndar öll skemman) opna klukkan 18:00 bæði kvöldin.
Vestfirskir plötusnúðar munu spila góða tónlist fyrir gesti og gangandi til klukkan 19:30, en þá mun tónlistarfólkið fara að streyma á sviðið.

Eins og þið vitið þá eruð það þið öll sem haldið þessu gangandi hjá okkur með því að versla við okkur veitingar og varning. Þess vegna finnst okkur svo mikilvægt að bjóða upp á metnaðarfullt úrval af vandaðri vöru og frábærum mat og drykk.
Við hvetjum því alla til þess að koma og skemmta sér konunglega og versla í leiðinni við okkur og þar með stuðla að áframhaldandi fjöri um komandi ár.
Þetta er nefnilega svo djöfulli gaman!

Kristján Freyr Halldórsson | fimmtudagur 6. apríl 2017

ALDREI FÓR ÉG SUÐUR BÝÐUR UPPÁ VISTVÆNAR UMBÚÐIR

Aldrei fór ég suður gerði á dögunum samning við prentsmiðjuna Odda um notkun umbúða sem eingöngu eru úr náttúrulegum hráefnum og flokkast því einfaldlega með öðrum lífrænum úrgangi. Umbúðirnar sem kallast Enviropack eru framleiddar úr sterkju sem fellur til við framleiðslu á sykri og maís og eru að fullu niðurbrjótanlegar og vistvænar.

Hátíðarhaldarar munu því bjóða uppá vistvænar umbúðir fyrir allar þær veitingar sem boðið verður uppá á hátíðarsvæðinu og flokkast því umbúðirnar með öðru lífrænu sorpi.

Á meðfylgjandi mynd má sjá rokkstjórann Kristján Frey handsala samstarfið við fulltrúa Odda, strandamanninn Karl F. Thorarensen.

Aðstandendur Aldrei fór ég suður eru verulega glaðir með þetta samstarf og stoltir af því að taka nokkur græn skref, t.a.m. í kjölfar hins góða framtaks Plastpokalausra Vestfjarða sem kynnt var í fyrra.

Við þetta má bæta að veitingaaðstaða á hátíðarsvæðinu mun verða á nýjum stað, inni í húsi við hlið tónleikaskemmunnar og vonast því Aldrei fór ég suður hópurinn að hátíðargestir kunni vel að meta stórbætta aðstöðu og styðji vel við bakið á hátíðinni með kaupum á veitingum og varningi. 

GÓÐA SKEMMTUN!

 

Snorri Örn Rafnsson | þriðjudagur 4. apríl 2017

KRAFT GALLINN ER TÍSKUTREND 2017

Það má segja ýmislegt um Aldrei fór ég suður hátíðina og alla þá sem að henni standa, en það verður ekki tekið af forsprökkunum að þau eru afar tískumeðvituð og ávallt óaðfinnanlega stælæseruð.
Nú hefur tísku- og trendgreiningardeild AFÉS gefið út, í kjölfar ítarlegra rannsókna, að heitasta flík páskanna 2017 - raunar ársins eins og það leggur sig - er gamli góði Kraft gallinn.

Af þessu tilefni hefur kaupfélagsdeild hátíðarinnar hafið sölu á afar takmörkuðu upplagi af ALDREI KRAFT-GÖLLUM. Hér má sjá nokkrar tískulegar myndir af tónlistarfólkinu Hildi Kristínu og Kristjáni Eldjárn spóka sig í göllunum, en þau koma einmitt bæði fram á hátíðinni í ár (Hildur Kristín með Hildi, Kristján með Kött Grá Pjé). Eins og sést á ljósmyndunum verða þau án alls vafa fær í flestan sjó þegar að hátíð kemur.

ALDREI KRAFT-GALLINN er ekki bara tískuleg flík, heldur dobblar hann sem einskonar AFÉS survival kit (sjálfsbjargarbúnaður) fyrir alla helgina, heildræn lausn á flestum vafa- og vandamálum er kunna að koma upp yfir páskahelgina.

ALDREI KRAFT-GALLINN mun kosta 25.900 kr. og sala á gallanum stendur framyfir föstudaginn næsta, 07. apríl.

Við hvetjum áhugasama til þess að leggja inn pöntun sem fyrst, en það má gera með því að senda póst á rokkstjori@aldrei.is, en í honum þarf að koma fram bæði nafn tilvonandi gallahafa ásamt stærð galla sem óskað er eftir S-XL í boði.

Einungis örfáir gallar verða framleiddir.