Ágúst Atlason | fimmtudagur 16. mars 2017

Blaðamannafundur, Vigur og Aldrei fór ég Suðurgata!

Í gær var inkað inn samstarfið við styrktaraðila Aldrei fór ég suður á Ísafjarðarflugvelli, eins og gert hefur verið síðustu ár. Þessir aðilar eru okkar helstu styrktaraðilar og eru þeir Orkubú Vestfjarða, Samskip, 66 Norður, Flugfélagið, Orkusalan og Landsbankinn. Þá komu með fluginu blaðamenn að sunnan ásamt Rokkstjóra vorum. Boðið var upp á kringlur og kókoslengjur úr Gamla og tóku til máls Örn Elías Mugison, Kristján Freyr rokkstjóri og hún Þórdís Sif, en hún og maður hennar fluttust hingað vestur búferlum eftir að hafa unnið ferð vestur á Aldrei fór ég suður með bílaleigubíl og gistingu fyrir nokkrum árum. Eftir fundinn var haldið í Vigur með bát BoreaAdventures og sá svo Ásgeir hjá Vesturferðum um ferðina. Í Vigur tók svo Salvar Baldursson á móti okkur og leiddu okkur um eyjuna með hinum ýmsu fróðleiksmolum. Endaði svo ferðin í fjósinu hjá þeim hjónum, en það er uppsett sem veitingastaður í dag. Þar var borin fram dýrindis lambasteik og kökur og kaffi á eftir. Eftir þessa frábæru ferð var haldið aftur á Ísafjörð til að endurnefna götu eina hér í bæ, en einn af okkar dyggustu sjálfboðaliðum, hann Ásgeir Andri rótari kom með þá uppástungu að gatan sem skemman stendur við yrði endurskírð og bætt við fyrir framan Aldrei fór ég. Og því heitir gatan í dag Aldrei fór ég Suðurgata og var það afhjúpað af bæjarstjóra. 

Góður dagur og gott start, takk allir sem gerðu þetta að veruleika!

Hérna má sjá myndaalbúm frá deginum!

Kristján Freyr Halldórsson | þriðjudagur 7. mars 2017

DAGSKRÁIN ER KOMIN!

Kæru vinir,

hér kemur loks í ljós hvaða leiftrandi frábæra listafólk mun troða upp á stóra sviðinu á Aldrei fór ég suður 2017, sem eins og lög gera ráð fyrir - fer fram um páskana á Ísafirði. Stóru dagarnir í rokkskemmunni verða 14. - 15. apríl en það verður nóg um að vera í kringum þessa daga á hinum ýmsu sviðum og pöllum Ísafjarðarbæjar.

Aldrei fór ég suður heldur áfram að fylgja þeirri sérstöðu að blanda saman straumum og stefnum í tónlist, konum og köllum, gömlum sem ungum, frægum og efnilegum og allt þar á milli. Þarna sjáum við indípopp, blús, pönk, lúðrastuð, þungarokk, gleðipopp, rapp, köntrí, dramatík og dans. Allir fá eitthvað, enginn fær ekkert, einn fær ekki allt.

Í þessu myndbandi sjáum við hvernig Ísfirðingar og nærsveitungar boða stuðið um páskana. Þarna má sjá glitta í Úlf veitingamann í Hamraborg, Hr. Hammond sjálfan, Lísbet málara og snilling, Gísla bæjarstjóra Ísafjarðabæjar, Gulla Diskó, Úlf á hjólabretti, hressa unglinga, Pétur Markan módel og sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, Svövu Rán leikskólastjóra á Stuðeyri ásamt börnum sínum, Óskar frá Örnu í Bolungarvík, hressan einhyrning, Pétur Magg hinn óheflaða kynni AFÉS og síðast en ekki síst Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Við gætum ekki verið stoltari af íbúum Ísafjarðarbæjar og nágrönnum okkar og hlökkum mikið til að taka á móti gestum vestur í stuðið um páskana!

Haukur S. Magnússon | mánudagur 20. febrúar 2017

Alþýðan þarf sitt rokk

Brestur brátt á með hátíð

-Næg bílastæði fyrir alla!

-Óheftur og ókeypis aðgangur alþýðu manna!

-Frábær félagsskapur!

-Fölskvalaus gleði!

-Ýkt góð tónlist (bæði titrandi tæknó og rífandi rokkenróll o.m. fl.)!

-Eftirsóknarverður varningur!

-Skrum, fals, fúsk og auglýsingamennska í lágmarki!

-Stuð, fjör, frændsemi og allskonar gott í hámarki!

-Plokkfiskur!

-Súpa!

-Rækjur!

-O.m.fl.!


Meira
Ágúst Atlason | miðvikudagur 2. nóvember 2016

Kristján Freyr nýr rokkstjóri Aldrei fór ég suður

Tónlistarmaðurinn og Hnífsdælingurinn Kristján Freyr Halldórsson hefur verið ráðinn rokkstjóri Aldrei fór ég suður hátíðarinnar og tekur hann við keflinu af Birnu Jónasdóttur. Birna hefur rokkstýrt síðustu þremur rokkhátíðum með bravúr en hún hélt til útlanda í vikunni og náði að klukka einn helsta samstarfsfélaga sinn Kristján Frey rétt fyrir brottför. Birna mun þó ekki yfirgefa stjórn hátíðarinnar og mun starfa við undirbúning næsta árs. Kristján Freyr er alls ekki ókunnur hátíðinni en hann hefur verið í innsta hring næstum frá byrjun hátíðarinnar.
 
Örn Elías Guðmundsson upphafsmaður Aldrei fór ég suður og jafnframt stjórnarformaður hátíðarinnar er ánægður með ráðninguna, „Kristján Freyr eða Kriss Rokk eins og við köllum hann var efst á óskalistanum hjá okkur í rokkstjóraembættið í ár. Hefðum við auglýst stöðuna hefði auglýsingin hljómað svona  „Okkur hjá Aldrei vantar manneskju sem kann að halda stöðugum takti, getur lesið í sal eins og veislustjóri og þekkir persónulega allt tónlistarfólk á Íslandi” og þá hefði bara einn maður komið til greina: Kristján Freyr”.

Meira
Ágúst Atlason | laugardagur 26. mars 2016

Lineup laugardagur!

Það var þrusustuð í gær og trylltu hvert annað bandið og listamenn lýðinn sem enginn væri morgundagurinn, en, hér er morgundagurinn, ef gær væri núna! Line uppið í kvöld gefur ekkert eftir og þetta verður rooooooosalegt! Í djamm(kulda)gallann og út með þig, því þetta lið ætlar að trylla þig í kvöld í Kampaskemmunni!

Og BÓNUS - 7 atriði!

20:00 GKR
20:40 Mamma Hestur
21:20 Emilíana Torrini
22:00 Úlfur Úlfur
22:40 Risaeðlan
23:20 Tonik Ensemble
24:00 Sykur

Bendum svo á frábærar myndir og frásögn af gærkveldinu á Orkusölublogginu!

Ágúst Atlason | föstudagur 25. mars 2016

Live útsending frá Aldrei

Að sjálfsögðu verður allt live í boði Jakans TV, Snerpu, Símafélagsins og Rás 2. Útsendinguna má finna hér og á RÚV 2. Þið getið smellt á LIVE takkann uppi í valmyndinni, nú erða bara HÉR!