Snorri Örn Rafnsson | föstudagur 3. apríl 2015

Varningurinn okkar

EIns og alþjóð veit þá er ekkert í heiminum flottara heldur en Afés varningurinn okkar.
Stórfenglegir bolir og peysur, óheyrilega töff gítarneglur, framúrskarandi sætar samfellur og margt margt fleira.
Allt þetta og meira til er til sölu í Verbúðinni í Aðalstræti 24.
Þar er opið alla páskana frá klukkan 13:00.
Hérna eru nokkrar myndir af þessum stórfenglegu vörum sem allir hreinlega verða að eignast.
Salan á þessum varningi er ómetanleg hjálp við að halda þessari frábæru hátíð gangandi og ókeypis ár hvert, þannig að það er um að gera að skondra í Verbúðina strax í dag og fjárfesta í töff dóti og fötum.
Annað væri hneysa...

Snorri Örn Rafnsson | fimmtudagur 2. apríl 2015

Hvað skal gjöra í dag?

Þó svo að Afés hátíðin hefjist ekki strangt til tekið fyrr en á morgun, þá er engin skortur á tónlist og skemmtun í dag og kvöld.

Skíðavikan er á fullu í allan dag og dagskráin er þétt setin og full af viðburðum sem vert er að kíkja á. Nú eða bara fara út í dal og njóta veðursins.

Ef að hungrið sverfur að þá er engin skortur á gæða veitingastöðum í bænum til að prufa.
Til dæmis er Hótel Ísafjörður alltaf með flottann matseðil sem vert er að glugga í. Subway er tilvalið ef fólk er í samlokustuði, og svo er alltaf eithvað gott og lífrænt á boðstólum í Bræðraborg.
Þessir staðir, og allir hinir eru með opið alla páskana, en nánar um opnunartíma verslana og veitingastaða og sundlauga og bakaría og ég veit ekki hvað og hvað er að finna hér.

Eftir matinn, þegar allir eru saddir og sælir þá er alveg tilvalið að gera sér ferð í Verbúðina, sem er staðsett á Aðalstræti 24, og versla sér ótrúlega flotta Afés boli, hettupeysur, gítarneglur, barmmerki og fleira frábært dót, og þar með styrkja hátíðina og tryggja að við getum haldið áfram um komandi tíð að bjóða upp á fríkeypis tónlistarveislu á páskunum. 
Einnig er verbúðin með fínt úrval af fatnaði og flottri íslenskri hönnun og eru með opið frá 13:00 alla páskana.

Svo verður kvöldið smekkfullt af flottri tónlist út um allan bæ.
Hótelið verður með tónlistarveislu, Krúsin með Afés upphitun, Bræðraborg með skíðakvöld og Húsið með lifandi tónlist.
Allir ættu að finna sér stuð við sitt hæfi, en nánari dagskrá er hægt að nálgast hérna.

 

Og ef fólki vantar eithvað að gera akkúrat núna, en nennir engan veginn strax út eða frá tölvunni, þá er hægt að kíkja á stemmninguna og stuðið sem var í fyrra á Afés 2014.

 


Snorri Örn Rafnsson | þriðjudagur 31. mars 2015

Músíktilraunaklemman...

Eins og alþjóð veit þá steig hin vestfirska Rhytmatik á stokk í músíktilraununum 2015 og fór með verðskuldaðan sigur af hólmi.
þeim tókst líka að vera eina hljómsveitin í allri keppninni sem var þegar skráð á Afés 2015, og þar af leiðandi eina hljómsveitin sem „mátti ekki vinna“ þar sem hluti af vinningnum var að spila á Afés 2015.
Aðstandendur Afés stóðu sumsé frammi fyrir óvæntu vandamáli.
En þau tóku þessu vandamáli fagnandi, enda mikið fagnaðarefni að strákarnir unnu.
Og ekki leið langur tími þangað til frábær lausn var fundin.
Meiri tónlist handa okkur öllum!
Heilum tveimur atriðum bætt við flóruna.

Futuregrapher
Hann heitir Árni Grétar. Hann er frá Tálknafirði og hann býður upp á raftónlist á heimsmælikvarða.
Hann er þekktur fyrir skemmtilega og líflega sviðsframkomu, þannig að hann ætti að eiga vel upp á pallborðið á Afés 2015.

 

Agent Fresco
Mjög viðeigandi, svona í ljósi aðstæðna, að fá gamlan músíktilraunasigurvegara á afés í ár.
Þeir tóku þátt árið 2008 og sigruðu með glæsibrag, og fengu einnig verðlaun fyrir besta trommuleik og besta gítarleik og besta bassaleik, þannig að það er klárt mál að þeir kunna að spila.
Þeir hafa ferðast um heiminn og haldið tónleika mjög víða, og þeir spiluðu á Afés 2009 við góðann orðstýr.
Klárlega góð viðbót við flóruna fyrir rokkhunda og tónlistarnerði.

 

 

Snorri Örn Rafnsson | föstudagur 20. mars 2015

Dagskráin 2015

Dagskrá hátíðarinnar í ár er nánast klöppuð og klár.
Við höfum af því tilefni skellt henni upp hér til hliðar. Það eina sem þið þurfið að gera til að berja hana augum er að klikka á viðeigandi tengil hérna hægra megin.
Nú eða bara lesa hana hérna fyrir neðan:

Það skal tekið fram að ef breytingar verða á dagskránni, eða einhverju verður bætt við þá verður það ekki uppfært hér, heldur á dagskrásíðunni sjálfri.


Föstudagur:

 Frítt inn

15:00 – 17:00

 

After ski á Hótel Ísafirði – Létt tónlist. Kakó, vöfflur og barinn opinn.

16:00 – 17:00

 

Barnaball með Páli Óskari í Edinborgarhúsinu.

20:00 – 24:00

 

Útitónleikar við Húsið – fram koma Sigríður Thorlacius, Snorri Helgason, Bjartey og Gígja úr Ylju, Hörmung, Smiths Tribute og Boogie Trouble.

20:00 – 22:00

Aldrei fór ég suður sett í kirkjunni með órafmögnuðum tónleikum, fram koma:  Himbrimi, Júníus Meyvant, Guðrið Hansdóttir og Valdimar Guðmundsson.

22:00 – 24:00

Grínbræðingur í Alþýðuhúsinu – Saga Garðarsdóttir, Hugleikur Dagsson og Kæsti Safírinn.

22:00 – 24:00

Lifandi tónlist á Edinborg Bistró.

 

Laugardagur:

 Frítt inn

14:00 – 16:00

 

Súputónleikar á Krúsinni – súpa og kaldur yfir ljúfum tónum.

15:00 – 17:00

 

After ski á Hótel Ísafirði – létt tónlist. Kakó og vöfflur og barinn opinn.

15:00 – 16:00

 

Heimkomuhátíð á Háskólasetrinu.

17:00 – 24:00

Skemmutónleikar í skemmu Gámaþjónustu Vestfjarða við Grænagarð.

22:00 – 24:00

Lifandi tónlist í Edinborg Bistró.

 

Sunnudagur:

 Frítt inn

13:00 – 15:00

 

Ráðstefna Aldrei fór ég suður.

16:00 – 18:00

 

Tónlistargleði á Húsinu – Bjartey og Gígja úr Ylju, Valdimar Guðmundsson, Snorri Helgason og Sigríður Thorlacius.

 

Djammið:

 Ekki frítt inn allstaðar

Föstudagur:

 

Dj Matti á Húsinu.
Helgi Björns og SSSól á Krúsinni.
Páll Óskar í Edinborgarhúsinu.

Laugardagur:

 

Dj Óli Dóri á Húsinu.
Sniglabandið í Edinborgarhúsinu.
President Bongó úr GusGus á Krúsinni.

Sunnudagur:

 

Sniglabandið í Edinborgarhúsinu.
Amabadama á Krúsinni.

 

Snorri Örn Rafnsson | þriðjudagur 17. mars 2015

Heiðursgestur hátíðarinnar

Í ár verður heiðursgestur hátíðarinnar ekki af verri endanum.
Hann er einn af stofnendum Stuðmanna og Spilverks þjóðanna.
Hann hefur samið ótal lög og texta sem flestir landsmenn þekkja og kunna.
Hann hefur áratuga reynslu af tónlist í sarpinum.
Hann hefur meira að segja farið í Eurovision.
Hann heitir Valgeir Guðjónsson!

Hérna eru nokkur sýnishorn af honum:

 

 

 

 

Snorri Örn Rafnsson | miðvikudagur 11. mars 2015

Tvö til

Hérna eru svo tvö frábær bönd sem endurspegla þann brjálaða fjölbreytileika sem við fáum að njóta á Aldrei fór ég suður 2015. 
Alvöru diskó bomba og Reggie snilld.

Boogie Trouble.
Hljómsveitin Boogie Trouble er draumur allra diskó bolta,  og annara sem hafa ríka þörf til að dilla sér við hressandi tónlist.
Hljómsveitin var stofnuð 2011,  og innan hennar má finna gamla meðlimi úr Rökkuró, Sprengjuhöllinni og Útidúr svo eithvað sé nefnt.
Svo er einnig þar að finna hana Sunnu Karen Einarsdóttir, sem er borin og barnfæddur ísfirðingur en stundar nú tónlistarnám við Listaháskóla Íslands. 

 

 

Amabadama.
Það er óhætt að segja að reggie bandið Amabadama hafi tekið landið með stormi á síðasta ári.
Sumarsmellurinn Hossa Hossa fékk gríðarlega spilun, og svo komu smellirnir hreinlega á færibandi .
Auk þess þá hreppti söngkonan Salka Sól Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins, ásamt þvi að vera að festa sig í sessi sem útvarps og sjónvarpskona á RUV.
Það mun engin vera með óhristann bossa eftir þetta úrvals reggie.